Færsluflokkur: Bloggar

Aftur í bloggheimum

Loksins er ég tengd aftur eins og þar stendur. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að komast inn á bloggið hefur það ekki tekist í þó nokkuð langan tíma. Mér til ánægju fékk ég sent nýtt lykilorði í tölvupósti í morgun.

 

Nýfæddir tvíburastrákarMargt hefur nú drifið á daga mína síðan síðast og ekki ætla ég að tíunda það hér nema...ég er orðin amma aftur. Þann 22. febrúar fæddust vel skapaðir drengir sem eru ýmist kallaðir: A og B, yngri og eldri eða stærri og minni. A var 10 merkur en B 12 merkur. Þeir voru teknir með keisaraskurði og öllum heilsast vel. Helga Jóna og Óskar eru afar hamingjusöm og það erum við sannarlega öll sem að þeim standa. Þeir eru yndislegir og mikil værð yfir þeim. Ferðunum til Reykjavíkur hafa svo fjölgað verulega. 

Ég er búin að setja tengil á myndaalbúm hér til hliðar. (Dreif í þessu fyrir samstarfskonu mína hana Rán,  sem er búin að vera að reka á eftir mér að setja inn myndir af litlu englunum.) Njótið vel.


Á misjöfnu þrífast börnin best..

...þennan frasa heyrði ég oft þegar ég var krakki. Mér fannst hann alltaf skrýtinn og óskiljanlegur. Vandræðaheimili heyrði maður stundum talað um, í tengslum við óþekktarorma. Og að vera sendur í sveit...hafði líka neikvæða merkingu.

840649071180BreidavikGuð minn góður hvað þetta hefur verið hræðilegur tími hjá mönnunum sem komu fram í Kastljósinu í Sjónvarpinu í kvöld og undanfarin kvöld. Fullorðnir menn brotna saman eftir öll þessi ár þegar þeir rifja upp dvöl sína á Breiðavík. Þvílík grimmd og mannvonska hefur átt sér stað þarna. Manni fallast hendur.

Fyrir allmörgum árum gisti ég í Breiðavík sem mér var þá tjáð að væri gamalt skólahús. Öllu má nú nafn gefa. Það voru allavega tveir af viðmælendum Kastljóss í kvöld sem gátu ekki fyrirgefið yfirvöldum að hafa rænt þá skólagöngu sem þeir áttu rétt á meðan á dvölinni í þessu helvíti stóð.

Það er svo sannarlega margt mannanna bölið og því miður þurfa mörg börn að þola ofbeldi af ýmsu tagi enn þann dag í dag.  


Hún á afmæli

amma ponnukaka-small

Þessi eðalkona, sem er mamma mín, á afmæli í dag.

Ég vona að ég verði svona hress til sálar og líkama þegar ég held upp á 81. árs afmælið mitt.  Hún hefur verið ekkja í 41 ár.

Nú þarf ég að flýta mér í vesturátt til Reykjavíkur því við mæðgurnar, og eini tengdasonurinn sem hún á, erum að fara að djamma saman um helgina. Í kvöld förum við í tvöfalt fertugsafmæli og svo heldur hún upp á afmælið sitt á sunnudag og það eru ekkert slor kökurnar og brauðið sem hún ber fram í tilefni dagsins. Og annað kvöld ætlum við...segi ekki meir.

 


Kveðjur

Ég var að enda við að lesa öll jólakortin sem við hjónin fengum þessi jól. Ég ákvað að ganga ekki frá þeim strax svo ég gæti lesið þau aftur. Mér finnst jólakveðjurnar skemmtilegasti siður jólanna. kort1935

Ég velti hverju korti milli handanna, skoðaði myndirnar vel og vandleg, skriftina og síðast en ekki síst kveðjurnar.

Ég reyndi að senda öllum, sem skrifuðu mér jólakort, fallegar hugsanir um leið og ég gekk frá kortunum ofan í kassa.


Fullkomið par

Í nokkur ár hef ég séð eldri hjón ganga hér um götur, sér til hressingar. Hún með skýluklút, bundinn undir kverka, og hann með derhúfu. Þau gengu ákveðin og örugg í fylgd hvors annars, hönd í hönd.

Í dag sá ég konuna eina á gangi.

Hann heldur ekki framar í hönd hennar.

------------------------

aldradir_hjonLjóð eftir Þursa (f. 1981-)

Fullkomið par

Við áttum svo vel saman
við vorum eitt
okkur var oft
líkt við malt og appelsín

Svo vel náðu við saman


Kraftaverk

Helga Jona

Helga Jóna komin rúmar 34 vikur á leið með tvíburastrákana sína.


Íslendingar alltaf skemmtilegir ;)

Ég er mjög ánægð með þessa umsögn:Íslendingar með skemmtilegasta liðið. Miklu betra en ef hún hefði hljóðað á þessa leið: Íslendingar með besta en leiðinlegasta liðið.


Af fjölskyldunni

Við hjónakornin vorum að koma úr höfuðborginni. Við gistum í nótt hjá mömmu, en okkur var boðið í þorramat heima hjá mínum elskulega móðurbróður Einari og konu hans Ingu. Þar hittust móðursystkinin mín, fjögur af fimm og makar, sem búsett eru í Reykjavík og ég, elsta barnabarn mömmu þeirra og pabba, og bróðir minn Þorsteinn, sem er næstur í röðinni. Þetta er annað skiptið sem við systkinin erum boðin með,  okkur til mikillar ánægju. Þetta er svo skemmtilegt fólk, sem ólgar af lífgleði, þrátt fyrir að vera komin af léttasta skeiði, nema náttúrlega örverpið sem er fimm árum eldra en ég. Við nutum þess að vera saman og borða úrvals þorramat sem borinn var fram af mikilli smekkvísi, segja sögur, gera grín af sjáfum okkur, hlægja, syngja og dansa.

Þær eru að verða tíðar ferðirnar til Reykjavíkur því það líður óðum að tvíburafæðingunni. Við þurfum að fylgjast með bumbulínu og vera þátttakendur í undirbúningnum. Minn elskulegur er svo spenntur að það er eins og hann sé að verða pabbi en ekki afi. Ég spurði bumbulínu, hvort tengdasonurinn væri ekki afbrýðisamur út í pabba hennar. Ekki hvað hún það vera, heldur væru þau mjög ánægð með þennan geysilega áhuga sem við sýndum. Rúm og kerruvagn var settur saman í gær og agnarsmáum fötum var raðað niður í kommóðu eftir stærðum. Það mátti greina mikla stemmningu og eftirvæntingu í loftinu. Það fer bumbulínu einstaklega vel að vera barnshafandi. Henni líður mjög vel og nýtur þessa ástands út í ystu æsar.

Ég vildi að við sæjum meira af barnabörnunum sem búa á hjara veraldar. Frumburðurinn afþakkaði starf sem hún var búin að fá í Reykjavík, því hún var ekki tilbúin að flytja strax, enda er það sennilega betra að bíða fram á vor eða sumar. Það er svo sem meira en að segja það að taka sig upp og flytja á milli landshluta. Ég hlakka svo sannarlega til þegar hún flytur suður, því ég held að það sé engin spurning um að hún flytji heldur hvenær. Hún var að byrja í bókhaldsnámi sem lýkur ekki fyrr en í maí. Það er ágætt að hafa það í farteskinu þegar hún fer aftur á stúfana í atvinnuleit, með hækkandi sól.

Sennilega er örverpið mitt í stígvélalandi á körfuboltaleik eða nýkomin af honum. Það var mjög mikilvægur leikur sem hún var að fara á í dag með "pabba" sínum og mági hans. Mágurinn var búin að kenna henni nokkra söngva sem hún átti að taka undir á leiknum. Innihald textanna var bölv og ragn um andstæðingana. Þau, hún og "pabbi" hennar, fara mjög oft á körfuboltaleiki um helgar. Nú eru u.þ.b. fimm mánuður í að hún komi heim, þessi elska. Þetta er fljótt að líða...og þó.

 


Nú þykir mér týra

Þegar ég vaknið í morgun leit ég á hina 30 ára gömlu útvarpsklukku á náttborðinu. Grænu tölustafirnir, sem lýsa á mig allar nætur, lýstu ekki. Ég kveikti ljósið og það logaði ljósblá týra á perunni. Óhugnaleg birta. Slökkti strax á lampanum og kallaði á hjálp.

Ég heyrði því fleygt að fólk hér í þorpinu hafi haldið að það væri að koma heimsendir vegna þessarar torkennilegu birtu. Mér datt reyndar í hug gasklefar.

Háspennan var farin af hálfri Reykjabrautinni, var mínum elskulega tjáð, þegar hann hringdi í Rafmagnsveiturnar til að athuga málið. Rafmagnið fór svo af fleiri götum, í gamla bænum, örlitlu síðar.

Klukkan hringdi ekki og þar af leiðandi var ég of sein í sund. Ég fór þó upp í sundlaug, til að skola af mér nóttina, tuttugu mínútum fyrir átta og var mætt fyrir átta í vinnuna. Mér finnst það þrekvirki, því ég er alltaf síðust af sundfélögunum mínum út úr klefunum á morgnanna.

Í kvöld ákvað ég að horfð á síðari hálfleik, Ísland - Pólland,  í Sjónvarpinu í kvöld. Það er alltaf verið að spyrja mig, hvort ég fylgist ekki með handboltanum. Ég hef bara ekki nennt að horfa á leikina, eða haft öðrum hnöppum að hneppa. Hef látið duga að athuga stöðuna annað slagið á meðan á leik stendur.

Tilgangurinn með glápinu í kvöld var líka að kíkja á strákana. Reyna átta mig á leikmönnunum sem allir eru að tala um.

Það var gaman að horfa á leikinn. Pólverjarnir voru ekki með nein vettlingatök á strákunum okkar. Núna veit ég hverjir Ólafur, Alexander og Sigfús eru.  Ég reyni að læra fleiri nöfn í næsta leik. Annars finnst mér Alfreð Gísla flottastur. 


Í dagsins önn

Ég var að horfa á tvö glæsikvendi í sjónvarpinu áðan. Önnur var Jónína Ben sem talaði um stólpípur og saurköggla. Hún mælti eindregið með stólpípunum til að afeitra líkamann. Afeitrunin fer fram á heilsuhæli í Póllandi. Læknirinn sem sat á móti henni var yfirvegaður og kurteis, jánkaði og hristi hausinn upp og niður eða til hliðanna, eftir því sem við átti. Ég hélt með honum, hann sagði þetta rugl.

Og svo var það hún Nigella sem bjó til súkkulaðiköku með miklu súkkulaðikremi. Eftir það fór hún út í búð og fyllti körfuna af margs konar súkkulaði. Allt ómissandi til heimilishaldsins, við hin ýmsu tækifæri. Mér var nú hugsaði til heilsuhælisins í Póllandi. Annars skil ég ekki hvernig hún getur verið svona fín við eldhússtörfin t.d. fór hún í sömu bleiku peysunni út í búð og þeirri sem hún var í, þegar hún útbjó kökuna. Ég er mikill aðdáandi Nigellu.

Ég fór í sund í morgun og í tækjasal íþróttahússins í eftirmiðdaginn. Ég var búin að biðja vinkonu mína að leyfa mér að koma sér í dag. Mér finnst leiðinlegt að fara ein og man aldrei hvernig ég á að nota þessi tæki,  svo finn ég til minnimáttarkenndar í þröngum æfingagalla, því ég er hvorki búin að fara í magaminnkun né svuntuaðgerð.

Þetta var fínn tími og við vorum einar í salnum. Vinkona mín er góður leiðbeinandi og var fljót að koma mér til hjálpar þegar ég þurfti þess með. Í einu tækinu, sem er til þess gert að minnka magann, var ég næstum búin að rota mig vegna vankunnáttu.

Eins og sjá má er ég á fullu að reyna að koma líkamanum í lag. Í gær hitti ég gigtarlækninn og þegar ég sá hann undraðist ég á því, af hverju ég hefði látið líða svona langan tíma síðan síðast. Hann er ferlega sætur og flott klæddur. Það vildi ekki betur til en svo, þegar hann rétti út höndina til að heilsa mér, að ég missti töskuna á tærnar á honum. Hann bauð mér sæti, brosti og spurði hvað ég segði. Ég sagðist segja: la, la, la. Hann þagði í dágóðastund, þangað til ég áttaði mig á, að ég átti segja hvað væri að mér. Hann er jafn kuldalegur og hann er sætur, vildi ekki eyða of löngum tíma í mig. Hann bara minnti mig á að ég væri með slitgigt og gaf mér töflur. Og ég held þær séu þegar farnar að virka. Hann sagði mér að koma eftir sex vikur. Kannski fer ég, kannski ekki.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband