Upprifjun frá síðasta mánuði...

...aðallega fyrir Guðnýju mína.

Síðustu vikurnar sem Gam var hjá okkur langaði mig að gera sem mest fyrir hana, vissi að hún kveið því að hafa lítið fyrir stafni í jólafríinu sem var ansi langt. Hún þurfti ekki að taka nein próf. Hún fékk þá hugmynd að reyna að komast inn í leikskólann og vera innan um litlu krakkana og hjálpa til. Þá fékk ég þá hugdettu að tala við Sissu sem kennir 1. bekk og athuga hvort hún þyrfti ekki hjálparhellu. Hún tók mjög vel í þessa hugmynd og Gam var aðstoðarkennari hennar í nokkra daga í skólafríinu. Hún hafði gaman af þessu og krakkarnir virtust vera hrifnir af henni. Sissa hafði gagn af henni og ég mér leið vel að vita af henni í skólanum en ekki einni heima.

Við tókum hana með okkur á jólahlaðborð Norræna félagsins sem haldið var að þessu sinni í Kiwanishúsinu 1. desember. Vinkona hennar Fah frá Tælandi sem er skiptinemi á Höfn í Hornafirði var í heimsókn hjá henni og kom með. Þær virtust skemmta sér vel og smökkuðu á öllum réttunum frá Norðurlöndunum sem fólk bar á borð með sér.

Þær horfðu á skemmtiatriðin og hlógu eins og við hin að skemmtilegum myndböndum sem sýnd voru. Annað þeirra sýndi danskennslu á diskódansi á finnsku sem var óborganlegt, en Óskar tengdasonur samdi texta við myndbandið.

Stelpurnar fóru á undan okkur heim. Þegar við komum heim var vinkonan að klippa hárið á Gam. Það voru svo mikil læti í þeim stöllum fram eftir nóttu að það var erfitt að festa svefn. Þær tístu, hlógu og gengu um eins og þær væru einar í heiminum.

Daginn eftir fórum við í Borgarleikhúsið og sáum Footloose. Vinkonan kom með í staðinn fyrir Sigga sem var veikur. Helga Jóna og Óliver komu líka. Þetta var skemmtileg sýning, en einhvern veginn naut ég hennar ekki sem skildi vegna bílslyssins sem varð fyrir neðan Litlu kaffistofuna þennan sama dag. Hugurinn leitaði alltaf til fjölskyldunnar, héðan úr Þorlákshöfn, sem varð fyrir þessari hræðilegri sorg og óbætanlegum missi.  

Ég held að Gam hafi ekki séð sýninguna nægilega vel því hún var ekki með gleraugun. Vinkonan hafði sagt henni að hún væri miklu sætari án gleraugna og það passaði líka betur við nýju klippinguna. Hún ákvað að fórna sjóninni fyrir fegurðina og skyldi gleraugun eftir út í bíl.  

Gam fór með okkur á aðventustund í kirkjunni. Hún er búddatrúar og þar af leiðandi heldur hún ekki jól. Ég reyndi að útskýra fyrir henni áður en við fórum hvað væri aðventa og heiti kertanna á aðventukransinum. Söngfélagið tók að þessu sinni þátt í aðventustundinni í kirkjunni ásamt kirkjukórnum og leikskólakór Bergheima.

Við í Söngfélaginu æfðum í skólanum áður en við mættum til leiks í kirkjunni. Á meðan á æfingunni stóð komu þrumur og eldingar og rafmagnið fór af öllu þorpinu og var ekki komið á þegar við mættum í Þorlákskirkju. Nú voru góð ráð dýr hvernig áttum við að sjá á textablöðin í þessu rökkri. Við, best að tala fyrir sjálfa sig, mér hefði verið nær að læra textana utan að.  

Á meðan presturinn talaði og lék á alls oddi og kirkjukórinn söng lögin sín við flygilinn, því ekki var hægt að leika á pípuorgelið, þá pældi ég í því hvernig ég gæti séð á nóturnar. Ég var búin að sigta út kertaljós í gluggakistunni og fá ljósbera svo ég gæti haldið á möppunni, en ljósberinn kunni textana.

Kirkjukórinn lauk söng sínum og presturinn þakkaði þeim fyrir og kynnti Söngfélagið með vel völdum orðum í þess garð. Um leið og við risum úr sætum kom rafmagnið og það varð ljós. Ef þetta er ekki tákn þá veit ég ekki hvað. 

Söngfélagið hafði sungið við messur og kirkjulegar athafnir frá því að byrjað var að messa í þorpinu þar til fyrir nokkrum árum. Nýr organisti var ráðinn við kirkjuna og upp kom ósætti sem varð til þess að Söngfélagið hrökklaðist úr kirkjunni og Þorlákskirkjukór var stofnaður. (Ég fer ekki ofan af því að það fer betur á að láta kórinn heita Kór Þorlákskirkju, það er þjálla.)

Eftir aðventustundina var kveikt á jólatrénu við Ráðhúsið og jólasveinar komu í heimsókn. Ég var búin að prenta út fróðleik um íslensku jólasveinana af netinu og við vorum búnar að skoða bækur á bókasafninu um jól og jólasiði, þannig að stelpan kom ekki alveg af fjöllum. Reyndar voru þessir sveinar í rauðum búningum og komnir fyrr til byggða en venja er.

Þarna stóðum við undir regnhlíf í grenjandi rigningu og roki og vonuðumst til að fá heitt kakó í boði sveitarfélagsins eftir að hafa hlýtt á Lúðrasveitina, skólakórinn og jólasveinana. Sú von varð að engu og við flýttum okkur heim áður en farið var að ganga í kringum tréð.

Við fórum okkar árlegu borgarferð til Reykjavíkur með Ester, Halldóri og Aðalbjörgu. Rakel var upptekin og Guðný í Stígvélalandinu, en við vorum með dætur okkar Gam og Helgu Jónu sem var grasekkja og átti afmæli (15.des). 

Við gistum á Sóleyjargötunni íbúðinni “okkar”, borðuðum á Jómfrúnni, gengum upp Laugarveginn og niður Skólavörðustíginn. Kíktum í búðir og á bari. Þegar heim var komið var að venju borðaður “natmad”. Stelpurnar skriðu undir sæng í tvíbreiðum svefnsófa í stofunni og horfðu á vídeó, meðan við (gamla fólkið) sögðum fimmaurabrandara og rifjuðum upp fyrri ferðir við eldhúsborðið. Og við söknuðum Guðnýjar og Rakelar.

Daginn eftir bauð Helga Jóna og Óskar fjölskyldunni í mat í tilefni afmælisins. Steingerður var í borginni og kom ásamt Sigurði Þór og dóttur hans, Kristínu. Helga Jóna er mikil súpukelling (eins og mamman) og bauð hún upp á ungverska súpu sem var afbragðs góð.

Í desember voru farnar nokkrar ferðir í Kringluna og Smáralindina, en Gam finnst mjög gaman að ráfa um verslunarmiðstöðvarnar, skoða, handfjatla og versla. Í Tælandi er aðalsportið hjá henni að vera í verslunarmiðstöðvum um helgar. Þær eru skreyttar fyrir jólin hátt og lágt þó ekki séu haldin jól í Tælandi, en þetta er víst gert til að koma á móts við ferðamennina.

Við gáfum okkur tíma til að fara á bíó og setjast inn á kaffihús í borginni. Stundum skruppum við líka á kaffihús á Eyrarbakka og á Selfoss. Eina ferðina fórum við í leiðangur á Sokkseyri og ætluðum að skoða Draugasetrið, fá okkur súpu á veitingastaðnum Við fjöruborðið, skoða Hólmaröst og koma við hjá Sjöfn Har. Alls staðar komum við að luktum dyrum.

Eitt kvöldið, rétt fyrir jól, komum við nokkrir vinir saman og skárum út laufabrauð og steiktum. Gam skar listilega vel út og ég held hún hafi haft gaman af. Hún var reyndar ekki mjög viljug að hjálpa mér við smákökubaksturinn, þótti skemmtilegra að vera áhorfandi og smakkari.

Á Þorláksmessu fórum við í Skötu. Einhver var búinn að fræða Gam um, hvernig skatan væri verkuð. Henni var sagt að hún væri grafin í holu í jörðu og síðan væri migið á hana. Þetta kostaði að ég þurfti að viða að mér heimildum og útskýra verkun skötunnar og þann sið að borða skötu á Þorláksmessu. Hún borðaði skötuna en fékk sér meira af saltfiskinum. Hún var ekki frá því að svipaður fiskur væri borðaður í Tælandi.

Henni finnst harðfiskur mjög góður og hefur fengið sendan þurrkaðan fisk í mjóum ræmum sem borðaður er eins og snakk. Bragðið er ekki ósvipað harðfiski en þó sætari. Jólin og áramótin liðu svo í faðmi fjölskyldunnar. Þau voru yndisleg. Gam fékk fullt af gjöfum og var að vonum ánægð. Hún fékk líka að halda á blysi og kveikja á flugeldi. Henni fannst þetta afar spennandi allt saman. Í Tælandi er flugeldasýning sem hið opinbera sér um.  

Hún fékk ósk sína uppfyllta þegar Siggi fór með hana og tvo vini hennar á skauta í Skautahöllinni í Reykjavík á milli jóla og nýárs. Hann rifjaði sjálfur, ásamt Steingerði, upp nokkra takta á skautum. Þetta var víst hin besta skemmtun, en ég skemmti mér vel heima á meðan. Áður en þau fóru á skautana bauð hann krökkunum á sögusýningu í Perlunni. Þeir höfðu gaman af henni og Gam tók fullt af myndum. Og endirinn á góðum degi var að fara í Smáralindina.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

Það er aldeilis pistillinn frú Sigríður. En fróðlegur og skemmtilegur að vanda. Þetta með ljósin í kirkjunni er náttúrlega bara fyndið og alveg örugglega vísbending um að Guð vildi allan ´timann hafa okkur í kirkjunni   Eða að minnsta kosti Jón rafveitukarl...

Sigþrúður Harðardóttir, 18.1.2007 kl. 13:44

2 identicon

Skemmtilegur pistill mamma mín  og mikið er gaman að lesa aftur eftir þig

Þín Helga Jóna.

Helga Jóna (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 16:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband