Helgin var að venju ljúf

Og þó, maður vaknaði upp við vondan draum. Kviknað hafði í húsi, hér í þorpinu, aðfararnótt laugardags. Síðar kom í ljós að kveikt hafi verið í húsinu. Guði sé lof að ekki urðu slys á mönnum. Þetta er hræðilegt áfall. Það er von að maður þori ekki að hugsa nema um einn dag í einu. Þetta er að verða svo ógnvekjandi heimur. 
Ég vil helst hætta að horfa á fréttir í sjónvarpi og lesa dagblöð. Stinga hausnum djúpt í sandinn.

Hugsa jákvætt, það er léttara...stendur einhvers staðar. Hugsa jákvætt....hugsa jákvætt....hugsa jákvætt. Í þessum rituðum orðum hringir síminn.

Þetta var aldeilis jákvætt símtal. Hélt fyrst að frúin væri frá Gallup, hún kynnti sig svo hátíðlega. Hún sagði ég hefði ekki verið heima, þegar hún kom við með fisk í poka. Hún hafði hengt hann á hurðarhúninn. Ekki bar á öðru, þarna hékk pokinn sparidyra megin. Hún er gift sómamanni sem stundar sjóinn. Mér hefur alltaf verið hlýtt til þessa sjarmörs, enn hlýrra eftir þennan velgjörning. Hann fær knús. Takk Simmi minn.

Annar sætur í þorpinu, kvæntur þessari,  hengdi stundum poka með soðningu á hurðarhúninn. Ég hélt þegar hann hætti að hafa afskipti af fiski, myndi ég aldrei fá hurðarhúnsfisk framar. Heimurinn er ekki svo slæmur eftir allt.

Nú er ég orðin svo jákvæð að ég man ekki eftir nema góðu fólki. Allir sem ég kynntist á Akureyri voru til dæmis frábærir. Þegar við fluttum þangað 1981 kynntumst við yndislegri fjölskyldu sem bjó í sömu blokk og við. Dætur okkar urði vinkonur. Dóttir þeirra lærði að spila á fiðlu, þegar hún var sjö ára gömul. Mín dóttir fetaði í fótspor hennar, aðeins seinna,  og lærði líka á fiðlu. Hún aftur á móti hætti á unglingárunum, en vinkonan hélt áfram. Vinkonan lærði síðar á violu og fór í söngnám. Hélt út í heim og menntaði sig meira í tónlist.
Á laugardaginn hélt hún burtfararprófstónleika í einsöng frá Söngskólanum í Reykjavík í Salnum. Hún stóð sig eins og hetja, hefur fallega mezzórödd og söng mjög fjölbreytta og skemmtilega söngdagskrá. Ég óska Sigríði Eydísi Úlfarsdóttur, þessari elsku, fyrir skemmtunina. Það voru allir svo stoltir af henni.

Þetta er líka mjög jákvætt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

Svolítill vandi á stundum að kúpla sig í jákvæða gírinn en borgar sig alltaf...bókstaflega alltaf

Sigþrúður Harðardóttir, 23.1.2007 kl. 17:29

2 Smámynd: Guðrún S Sigurðardóttir

Þú hefur greinilega fundið jákvæða gírinn.... allavega á kóræfingunni!!

Guðrún S Sigurðardóttir, 24.1.2007 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband