Af fjölskyldunni

Við hjónakornin vorum að koma úr höfuðborginni. Við gistum í nótt hjá mömmu, en okkur var boðið í þorramat heima hjá mínum elskulega móðurbróður Einari og konu hans Ingu. Þar hittust móðursystkinin mín, fjögur af fimm og makar, sem búsett eru í Reykjavík og ég, elsta barnabarn mömmu þeirra og pabba, og bróðir minn Þorsteinn, sem er næstur í röðinni. Þetta er annað skiptið sem við systkinin erum boðin með,  okkur til mikillar ánægju. Þetta er svo skemmtilegt fólk, sem ólgar af lífgleði, þrátt fyrir að vera komin af léttasta skeiði, nema náttúrlega örverpið sem er fimm árum eldra en ég. Við nutum þess að vera saman og borða úrvals þorramat sem borinn var fram af mikilli smekkvísi, segja sögur, gera grín af sjáfum okkur, hlægja, syngja og dansa.

Þær eru að verða tíðar ferðirnar til Reykjavíkur því það líður óðum að tvíburafæðingunni. Við þurfum að fylgjast með bumbulínu og vera þátttakendur í undirbúningnum. Minn elskulegur er svo spenntur að það er eins og hann sé að verða pabbi en ekki afi. Ég spurði bumbulínu, hvort tengdasonurinn væri ekki afbrýðisamur út í pabba hennar. Ekki hvað hún það vera, heldur væru þau mjög ánægð með þennan geysilega áhuga sem við sýndum. Rúm og kerruvagn var settur saman í gær og agnarsmáum fötum var raðað niður í kommóðu eftir stærðum. Það mátti greina mikla stemmningu og eftirvæntingu í loftinu. Það fer bumbulínu einstaklega vel að vera barnshafandi. Henni líður mjög vel og nýtur þessa ástands út í ystu æsar.

Ég vildi að við sæjum meira af barnabörnunum sem búa á hjara veraldar. Frumburðurinn afþakkaði starf sem hún var búin að fá í Reykjavík, því hún var ekki tilbúin að flytja strax, enda er það sennilega betra að bíða fram á vor eða sumar. Það er svo sem meira en að segja það að taka sig upp og flytja á milli landshluta. Ég hlakka svo sannarlega til þegar hún flytur suður, því ég held að það sé engin spurning um að hún flytji heldur hvenær. Hún var að byrja í bókhaldsnámi sem lýkur ekki fyrr en í maí. Það er ágætt að hafa það í farteskinu þegar hún fer aftur á stúfana í atvinnuleit, með hækkandi sól.

Sennilega er örverpið mitt í stígvélalandi á körfuboltaleik eða nýkomin af honum. Það var mjög mikilvægur leikur sem hún var að fara á í dag með "pabba" sínum og mági hans. Mágurinn var búin að kenna henni nokkra söngva sem hún átti að taka undir á leiknum. Innihald textanna var bölv og ragn um andstæðingana. Þau, hún og "pabbi" hennar, fara mjög oft á körfuboltaleiki um helgar. Nú eru u.þ.b. fimm mánuður í að hún komi heim, þessi elska. Þetta er fljótt að líða...og þó.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Var að kíkja í fyrsta sinn á nýju síðuna þína...það er gaman að þessu!

Rebekka Ómarsdóttir (IP-tala skráð) 28.1.2007 kl. 19:14

2 Smámynd: Guðrún S Sigurðardóttir

Eru það virkilega tvíburar???? Varstu búin að segja mér það??? Vá, til hamingju!

Guðrún S Sigurðardóttir, 29.1.2007 kl. 21:53

3 Smámynd: Sigríður Guðnadóttir

Já, það held ég örugglega...og þó ég man það ekki. En þetta er bara skemmtilegt.

Sigríður Guðnadóttir, 30.1.2007 kl. 11:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband