28.1.2007 | 18:39
Af fjölskyldunni
Þær eru að verða tíðar ferðirnar til Reykjavíkur því það líður óðum að tvíburafæðingunni. Við þurfum að fylgjast með bumbulínu og vera þátttakendur í undirbúningnum. Minn elskulegur er svo spenntur að það er eins og hann sé að verða pabbi en ekki afi. Ég spurði bumbulínu, hvort tengdasonurinn væri ekki afbrýðisamur út í pabba hennar. Ekki hvað hún það vera, heldur væru þau mjög ánægð með þennan geysilega áhuga sem við sýndum. Rúm og kerruvagn var settur saman í gær og agnarsmáum fötum var raðað niður í kommóðu eftir stærðum. Það mátti greina mikla stemmningu og eftirvæntingu í loftinu. Það fer bumbulínu einstaklega vel að vera barnshafandi. Henni líður mjög vel og nýtur þessa ástands út í ystu æsar.
Ég vildi að við sæjum meira af barnabörnunum sem búa á hjara veraldar. Frumburðurinn afþakkaði starf sem hún var búin að fá í Reykjavík, því hún var ekki tilbúin að flytja strax, enda er það sennilega betra að bíða fram á vor eða sumar. Það er svo sem meira en að segja það að taka sig upp og flytja á milli landshluta. Ég hlakka svo sannarlega til þegar hún flytur suður, því ég held að það sé engin spurning um að hún flytji heldur hvenær. Hún var að byrja í bókhaldsnámi sem lýkur ekki fyrr en í maí. Það er ágætt að hafa það í farteskinu þegar hún fer aftur á stúfana í atvinnuleit, með hækkandi sól.
Sennilega er örverpið mitt í stígvélalandi á körfuboltaleik eða nýkomin af honum. Það var mjög mikilvægur leikur sem hún var að fara á í dag með "pabba" sínum og mági hans. Mágurinn var búin að kenna henni nokkra söngva sem hún átti að taka undir á leiknum. Innihald textanna var bölv og ragn um andstæðingana. Þau, hún og "pabbi" hennar, fara mjög oft á körfuboltaleiki um helgar. Nú eru u.þ.b. fimm mánuður í að hún komi heim, þessi elska. Þetta er fljótt að líða...og þó.
Athugasemdir
Var að kíkja í fyrsta sinn á nýju síðuna þína...það er gaman að þessu!
Rebekka Ómarsdóttir (IP-tala skráð) 28.1.2007 kl. 19:14
Eru það virkilega tvíburar???? Varstu búin að segja mér það??? Vá, til hamingju!
Guðrún S Sigurðardóttir, 29.1.2007 kl. 21:53
Já, það held ég örugglega...og þó ég man það ekki. En þetta er bara skemmtilegt.
Sigríður Guðnadóttir, 30.1.2007 kl. 11:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.