Vin (ekki Vín) í Grímsnesi

Mér finnst sérlega skemmtilegt að lifa þegar sólin skín. Og það var svo sannarlega gott veður í dag og tilhlökkun hjá okkur stöllum, Rebekku og mér, þegar við brunuðum upp í Grímsnes á Phathfinder (sem ég kallaði í ógáti Fastbinder) að heimsækja hið sjálfbæra byggðarhverfi Sólheima, vegna þróunarverkefnisins Grænir fingur sem við ætlum að vinna að í vetur.

 

Sólheimar eru í níu kílómetra fjarlægð frá þjóðveginum og þegar afleggjarinn er ekinn sem leið liggur verður maður ekkert var við byggðarkjarnann fyrr en Sólheima-skiltið blasir við og vegur sem liggur niður í kvos og þar kúrir lítið þorp umvafið fallegum háum trjám.

 

Sólheimar_Græna kannanÞað ríkti mikill friður í hinu vistvæna þorpi; kaffihúsið Græna kannan var lokað, þar sem ætlunin var að fá sér hádegisverð, og opnaði ekki fyrr en klukkan eitt. Það voru allir í mat. Við ákváðum að fara að Minni-Borg og athuga hvort við gætum ekki fengið okkur eitthvað í gogginn þar. Þessi helmingur hringsins var miklu betri, allur malbikaður. Við borðuðum hakkbökur við annað tveggja borða sem bensínstöðin hýsti, við hitt borðið sátu ýtu- og gröfukallar.

Það var sérstök upplifun að borða þarna á bensínstöðinni; borðin voru þétt upp við hvort annað og ómögulegt að komast hjá því að heyra samræðurnar sem þar fóru fram; okkur þótti gaman að fylgjast með þeim og flissuðum þegar svo bar undir; reyndum samt að láta ekki mikið á því bera. Mér fannst eins og ég vera stödd á amerískri bensínstöð eins og maður hefur séð í bíómyndum.  

 

Við fórum aftur niður að Sólheimum en komum við hjá Simma, fyrrum samstarfsfélaga okkar, sem byggir sér einbýlishús á landareign sinni. Hann var þarna með börnin sín tvö sem hjálpuðu honum við bygginguna. Hann leit vel út og virtist alsæll með sig og sína baðandi sig í sólskininu með dásamlegt útsýni í allar áttir.

 

Tvær stelpur með stærðarinnar bakpoka veifuðu til okkar. Við stoppuðum og buðu þeim far en þær voru einmitt að fara niður að Sólheimum. Það kom í ljós að önnur þeirra þekkti til samskonar samfélags í Austurríki, þaðan sem þær komu, og langaði að heimsækja staðinn; það var ekki annað á þeim að heyra en þeim litist vel á það sem blasti við þeim þegar við komum niður í þennan undurfagra reit.

 Sólheimar_1.8.07_Rebekka

Inga hittum við í gróðurhúsinu þar sem ræktað er lífrænt grænmeti og selt er í Versluninni Völu á Sólheimum og Hagkaupum í Reykjavík undir framleiðsluheitinu Sunnu. Hann sýndi okkur tómata: rauða, gula og svarta. paprikur og gúrkur. Hann fræddi okkur líka um starfsemina og ferlið.

 

Eftir heimsóknina hjá Sunnu fórum við í verslunina og keyptum grænmeti og töfrakrem framleitt á Tálknafirði; víst algjört undrakrem, á nær alla hluti líkamans. Ég keypti mér Fótaundur.

 

Lukum heimsókn okkar í sjálfbæra samfélagið, Sólheima, á Grænu könnunni; keyrðum svo í sæluvímu heim á leið uppnumdar af fegurðinni sem blasti við okkur þangað til við fórum í Bónus á Selfossi, þá datt brosið af andlitunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gulir tómatar eru góðir!

Bekka litla (IP-tala skráð) 2.8.2007 kl. 11:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband