Helgin var að venju ljúf

Og þó, maður vaknaði upp við vondan draum. Kviknað hafði í húsi, hér í þorpinu, aðfararnótt laugardags. Síðar kom í ljós að kveikt hafi verið í húsinu. Guði sé lof að ekki urðu slys á mönnum. Þetta er hræðilegt áfall. Það er von að maður þori ekki að hugsa nema um einn dag í einu. Þetta er að verða svo ógnvekjandi heimur. 
Ég vil helst hætta að horfa á fréttir í sjónvarpi og lesa dagblöð. Stinga hausnum djúpt í sandinn.

Hugsa jákvætt, það er léttara...stendur einhvers staðar. Hugsa jákvætt....hugsa jákvætt....hugsa jákvætt. Í þessum rituðum orðum hringir síminn.

Þetta var aldeilis jákvætt símtal. Hélt fyrst að frúin væri frá Gallup, hún kynnti sig svo hátíðlega. Hún sagði ég hefði ekki verið heima, þegar hún kom við með fisk í poka. Hún hafði hengt hann á hurðarhúninn. Ekki bar á öðru, þarna hékk pokinn sparidyra megin. Hún er gift sómamanni sem stundar sjóinn. Mér hefur alltaf verið hlýtt til þessa sjarmörs, enn hlýrra eftir þennan velgjörning. Hann fær knús. Takk Simmi minn.

Annar sætur í þorpinu, kvæntur þessari,  hengdi stundum poka með soðningu á hurðarhúninn. Ég hélt þegar hann hætti að hafa afskipti af fiski, myndi ég aldrei fá hurðarhúnsfisk framar. Heimurinn er ekki svo slæmur eftir allt.

Nú er ég orðin svo jákvæð að ég man ekki eftir nema góðu fólki. Allir sem ég kynntist á Akureyri voru til dæmis frábærir. Þegar við fluttum þangað 1981 kynntumst við yndislegri fjölskyldu sem bjó í sömu blokk og við. Dætur okkar urði vinkonur. Dóttir þeirra lærði að spila á fiðlu, þegar hún var sjö ára gömul. Mín dóttir fetaði í fótspor hennar, aðeins seinna,  og lærði líka á fiðlu. Hún aftur á móti hætti á unglingárunum, en vinkonan hélt áfram. Vinkonan lærði síðar á violu og fór í söngnám. Hélt út í heim og menntaði sig meira í tónlist.
Á laugardaginn hélt hún burtfararprófstónleika í einsöng frá Söngskólanum í Reykjavík í Salnum. Hún stóð sig eins og hetja, hefur fallega mezzórödd og söng mjög fjölbreytta og skemmtilega söngdagskrá. Ég óska Sigríði Eydísi Úlfarsdóttur, þessari elsku, fyrir skemmtunina. Það voru allir svo stoltir af henni.

Þetta er líka mjög jákvætt.


Þorri byrjaður...

....á bóndadaginn.

Ég hlustaði á rás tvö í bílnum í dag, þá stóð þar yfir kosning á kynþokkafyllsta kallinum. Og Guðrún Gunnars mætt aftur í útvarpið.  Ég hef verið að leita að þættinum milli 6 og sjö á sjónvarpsstöðvunum undanfarið, en á árangurs.

Þarna er skýringin komin, hann hlýtur að vera hættur úr því að Guðrún er byrjuð í útvarpinu. Guðrún er skemmtileg fjölmiðlakona, hvort sem er í sjónavarpi eða útvarpi.  

Ksiggiynþokkafyllsti maður ársins, er maðurinn sem ég hitti 19. janúar fyrir 33 þremur árum.


Skondið...

...finnst mér að þurfa að borga lyf fyrirfram. Ég verð eiginlega að láta þessa sögu vaða. Það er reyndar leiðinlegt að vera með svona nöldur því afgreiðslustúlkan í apótekinu er svo yndisleg. Hún laðar að kúnna, en ekki get ég sagt það sama um apótekarann.  

Á lyfseðli sem stílaður var á mig og sendur í apótekið í þorpinu voru skráð þrjú lyf. Þegar ég sótti lyfin seinni partinn átti apótekarinn ekki lyfið, sem var dýrast á rúmar 4000 krónur, en það var von á því daginn eftir. Ég var samt látin borga fyrir lyfið fyrirfram, sem ég gerði án athugasemda, fannst það reyndar svolítið skrýtið. Tveimur dögum síðar fór ég í apótekið og þá var lyfið ekki komið. Þá bað ég stúlkuna að skila því til apótekarans að ég væri afar ósátt við að þurfa borga lyfið fyrirfram og þurfa þar að auki að bíða eftir því í nokkra daga. Svörin sem ég fékk frá apótekaranum (í gegnum stúlkuna) voru að þetta væri gert svo hann sæti ekki uppi með lyfið, sem hann væri búinn að panta fyrir mig, ef ég næði svo ekki í það.  

Þú tryggir ekki eftir á.


Sjúkrasaga

Hjálpin er yfirleitt handan við hornið þ.e.a.s. ef maður ber sig eftir henni.  

Ég er búin að vera að drepast í vinstri fæti í nærri þrjú ár, síðan ég hlunkaðist niður á hnén til reita arfa. Þá small eitthvað í hnénu. Daginn eftir heyrðist annar smellur sem fylgdi mikill sársauki en var samt heldur til bóta þegar sársaukinn leið hjá, eins og eitthvað færi á sinn stað aftur. 

Heimilislæknirinn minn var því miður í fríi þegar þetta gerðist og afleysingalæknirinn nennti ekki að sinna mér.  

Eftir hnésnyrtingu, margar ferðir til lækna, sjúkraþjálfara og nuddara sem báru lítinn árangur, auðvitað var ég stundum ágæt, ákvað ég að ég skyldi hætta að fara til læknis og sjúkraþjálfara út af fætinum. Það þýddi hreinlega ekkert. Ég myndi reyna að linna þjáningarnar með því að fara í líkamsrækt og harka af mér. Reyna að hugsa ekki um sársaukann.  

Í fyrrinótt svaf ég sama og ekkert fyrir kvölum í fætinum, það var svo sem ekkert nýtt. En það sem skelfdi mig var að ég stóð sjálfa mig að því að fara að hugsa um, hvað ég ætti margar svona kvalafullar nætur eftir ólifaðar!  

Í gær ákvað ég að gera eitthvað í mínum málum og reyna að berja að dyrum hjá læknum og sjúkraþjálfurum. Sjúkraþjálfarinn sá aumur á mér og gaf mér tíma í gær og nuddaði, beygði og togaði fót og mjöðm á alla kanta. Eftir það fór ég beint í bæinn með ársgamla tilvísun í röngen-myndatöku á vinstri mjöðm. 

Heimsóknin hjá sjúkraþjálfaranum bar svo sannarlega árangur. Ég svaf eins og engill í nótt og finn minna til í fætinum.  

Núna var ég að koma úr öðrum tíma hjá þessum ágæta sjúkraþjálfa og ég vona að hann geti hrakið vöðvabólguna úr fæti og mjöð fyrir fullt og allt. 


Upprifjun frá síðasta mánuði...

...aðallega fyrir Guðnýju mína.

Síðustu vikurnar sem Gam var hjá okkur langaði mig að gera sem mest fyrir hana, vissi að hún kveið því að hafa lítið fyrir stafni í jólafríinu sem var ansi langt. Hún þurfti ekki að taka nein próf. Hún fékk þá hugmynd að reyna að komast inn í leikskólann og vera innan um litlu krakkana og hjálpa til. Þá fékk ég þá hugdettu að tala við Sissu sem kennir 1. bekk og athuga hvort hún þyrfti ekki hjálparhellu. Hún tók mjög vel í þessa hugmynd og Gam var aðstoðarkennari hennar í nokkra daga í skólafríinu. Hún hafði gaman af þessu og krakkarnir virtust vera hrifnir af henni. Sissa hafði gagn af henni og ég mér leið vel að vita af henni í skólanum en ekki einni heima.

Við tókum hana með okkur á jólahlaðborð Norræna félagsins sem haldið var að þessu sinni í Kiwanishúsinu 1. desember. Vinkona hennar Fah frá Tælandi sem er skiptinemi á Höfn í Hornafirði var í heimsókn hjá henni og kom með. Þær virtust skemmta sér vel og smökkuðu á öllum réttunum frá Norðurlöndunum sem fólk bar á borð með sér.

Þær horfðu á skemmtiatriðin og hlógu eins og við hin að skemmtilegum myndböndum sem sýnd voru. Annað þeirra sýndi danskennslu á diskódansi á finnsku sem var óborganlegt, en Óskar tengdasonur samdi texta við myndbandið.

Stelpurnar fóru á undan okkur heim. Þegar við komum heim var vinkonan að klippa hárið á Gam. Það voru svo mikil læti í þeim stöllum fram eftir nóttu að það var erfitt að festa svefn. Þær tístu, hlógu og gengu um eins og þær væru einar í heiminum.

Daginn eftir fórum við í Borgarleikhúsið og sáum Footloose. Vinkonan kom með í staðinn fyrir Sigga sem var veikur. Helga Jóna og Óliver komu líka. Þetta var skemmtileg sýning, en einhvern veginn naut ég hennar ekki sem skildi vegna bílslyssins sem varð fyrir neðan Litlu kaffistofuna þennan sama dag. Hugurinn leitaði alltaf til fjölskyldunnar, héðan úr Þorlákshöfn, sem varð fyrir þessari hræðilegri sorg og óbætanlegum missi.  

Ég held að Gam hafi ekki séð sýninguna nægilega vel því hún var ekki með gleraugun. Vinkonan hafði sagt henni að hún væri miklu sætari án gleraugna og það passaði líka betur við nýju klippinguna. Hún ákvað að fórna sjóninni fyrir fegurðina og skyldi gleraugun eftir út í bíl.  

Gam fór með okkur á aðventustund í kirkjunni. Hún er búddatrúar og þar af leiðandi heldur hún ekki jól. Ég reyndi að útskýra fyrir henni áður en við fórum hvað væri aðventa og heiti kertanna á aðventukransinum. Söngfélagið tók að þessu sinni þátt í aðventustundinni í kirkjunni ásamt kirkjukórnum og leikskólakór Bergheima.

Við í Söngfélaginu æfðum í skólanum áður en við mættum til leiks í kirkjunni. Á meðan á æfingunni stóð komu þrumur og eldingar og rafmagnið fór af öllu þorpinu og var ekki komið á þegar við mættum í Þorlákskirkju. Nú voru góð ráð dýr hvernig áttum við að sjá á textablöðin í þessu rökkri. Við, best að tala fyrir sjálfa sig, mér hefði verið nær að læra textana utan að.  

Á meðan presturinn talaði og lék á alls oddi og kirkjukórinn söng lögin sín við flygilinn, því ekki var hægt að leika á pípuorgelið, þá pældi ég í því hvernig ég gæti séð á nóturnar. Ég var búin að sigta út kertaljós í gluggakistunni og fá ljósbera svo ég gæti haldið á möppunni, en ljósberinn kunni textana.

Kirkjukórinn lauk söng sínum og presturinn þakkaði þeim fyrir og kynnti Söngfélagið með vel völdum orðum í þess garð. Um leið og við risum úr sætum kom rafmagnið og það varð ljós. Ef þetta er ekki tákn þá veit ég ekki hvað. 

Söngfélagið hafði sungið við messur og kirkjulegar athafnir frá því að byrjað var að messa í þorpinu þar til fyrir nokkrum árum. Nýr organisti var ráðinn við kirkjuna og upp kom ósætti sem varð til þess að Söngfélagið hrökklaðist úr kirkjunni og Þorlákskirkjukór var stofnaður. (Ég fer ekki ofan af því að það fer betur á að láta kórinn heita Kór Þorlákskirkju, það er þjálla.)

Eftir aðventustundina var kveikt á jólatrénu við Ráðhúsið og jólasveinar komu í heimsókn. Ég var búin að prenta út fróðleik um íslensku jólasveinana af netinu og við vorum búnar að skoða bækur á bókasafninu um jól og jólasiði, þannig að stelpan kom ekki alveg af fjöllum. Reyndar voru þessir sveinar í rauðum búningum og komnir fyrr til byggða en venja er.

Þarna stóðum við undir regnhlíf í grenjandi rigningu og roki og vonuðumst til að fá heitt kakó í boði sveitarfélagsins eftir að hafa hlýtt á Lúðrasveitina, skólakórinn og jólasveinana. Sú von varð að engu og við flýttum okkur heim áður en farið var að ganga í kringum tréð.

Við fórum okkar árlegu borgarferð til Reykjavíkur með Ester, Halldóri og Aðalbjörgu. Rakel var upptekin og Guðný í Stígvélalandinu, en við vorum með dætur okkar Gam og Helgu Jónu sem var grasekkja og átti afmæli (15.des). 

Við gistum á Sóleyjargötunni íbúðinni “okkar”, borðuðum á Jómfrúnni, gengum upp Laugarveginn og niður Skólavörðustíginn. Kíktum í búðir og á bari. Þegar heim var komið var að venju borðaður “natmad”. Stelpurnar skriðu undir sæng í tvíbreiðum svefnsófa í stofunni og horfðu á vídeó, meðan við (gamla fólkið) sögðum fimmaurabrandara og rifjuðum upp fyrri ferðir við eldhúsborðið. Og við söknuðum Guðnýjar og Rakelar.

Daginn eftir bauð Helga Jóna og Óskar fjölskyldunni í mat í tilefni afmælisins. Steingerður var í borginni og kom ásamt Sigurði Þór og dóttur hans, Kristínu. Helga Jóna er mikil súpukelling (eins og mamman) og bauð hún upp á ungverska súpu sem var afbragðs góð.

Í desember voru farnar nokkrar ferðir í Kringluna og Smáralindina, en Gam finnst mjög gaman að ráfa um verslunarmiðstöðvarnar, skoða, handfjatla og versla. Í Tælandi er aðalsportið hjá henni að vera í verslunarmiðstöðvum um helgar. Þær eru skreyttar fyrir jólin hátt og lágt þó ekki séu haldin jól í Tælandi, en þetta er víst gert til að koma á móts við ferðamennina.

Við gáfum okkur tíma til að fara á bíó og setjast inn á kaffihús í borginni. Stundum skruppum við líka á kaffihús á Eyrarbakka og á Selfoss. Eina ferðina fórum við í leiðangur á Sokkseyri og ætluðum að skoða Draugasetrið, fá okkur súpu á veitingastaðnum Við fjöruborðið, skoða Hólmaröst og koma við hjá Sjöfn Har. Alls staðar komum við að luktum dyrum.

Eitt kvöldið, rétt fyrir jól, komum við nokkrir vinir saman og skárum út laufabrauð og steiktum. Gam skar listilega vel út og ég held hún hafi haft gaman af. Hún var reyndar ekki mjög viljug að hjálpa mér við smákökubaksturinn, þótti skemmtilegra að vera áhorfandi og smakkari.

Á Þorláksmessu fórum við í Skötu. Einhver var búinn að fræða Gam um, hvernig skatan væri verkuð. Henni var sagt að hún væri grafin í holu í jörðu og síðan væri migið á hana. Þetta kostaði að ég þurfti að viða að mér heimildum og útskýra verkun skötunnar og þann sið að borða skötu á Þorláksmessu. Hún borðaði skötuna en fékk sér meira af saltfiskinum. Hún var ekki frá því að svipaður fiskur væri borðaður í Tælandi.

Henni finnst harðfiskur mjög góður og hefur fengið sendan þurrkaðan fisk í mjóum ræmum sem borðaður er eins og snakk. Bragðið er ekki ósvipað harðfiski en þó sætari. Jólin og áramótin liðu svo í faðmi fjölskyldunnar. Þau voru yndisleg. Gam fékk fullt af gjöfum og var að vonum ánægð. Hún fékk líka að halda á blysi og kveikja á flugeldi. Henni fannst þetta afar spennandi allt saman. Í Tælandi er flugeldasýning sem hið opinbera sér um.  

Hún fékk ósk sína uppfyllta þegar Siggi fór með hana og tvo vini hennar á skauta í Skautahöllinni í Reykjavík á milli jóla og nýárs. Hann rifjaði sjálfur, ásamt Steingerði, upp nokkra takta á skautum. Þetta var víst hin besta skemmtun, en ég skemmti mér vel heima á meðan. Áður en þau fóru á skautana bauð hann krökkunum á sögusýningu í Perlunni. Þeir höfðu gaman af henni og Gam tók fullt af myndum. Og endirinn á góðum degi var að fara í Smáralindina.  

 


Skiptineminn okkar ...

er búin að skipta um fjölskyldu en það stóð alltaf til. Það er hálf tómlegt í kotinu. Ég sakna Gam og hugsa mikið til hennar. En það má segja að það sé viss léttir þó allt hafi gengið mjög vel. Ég er ekki eins bundin. Ég var alltaf með hálfgerðar áhyggjur af henni, að henni leiddist, að ég yrði að gera eitthvað fyrir hana og með henni. Ég vandaði mig rosalega við matartilbúninginn og var oftar en ekki með uppskriftarbækur á lofti. Ég ætlaði að ég væri eins og hin mittismjóa Nigela í sjónvarpinu þar sem allt leikur í höndunum á (eins og þegar hún skilur að eggjarauðuna frá hvítunni í höndunum, lætur hvítuna renna á milli fingra sinna og heldur á rauðunni í lófanum) og reyndi að elda fjölbreyttan mat, ekki bara hakkrétti eins og aumingja Guðný mín var orðin ansi leið á. Gam borðaði allt sem borið var á borð, en þótti maturinn að sjálfsögðu misgóður. Blóðmör fannst henni ekki mjög góður og skrítið fannst henni að borða grjónagraut með kanil út á. Það er þroskandi og ánægjulegt að hafa skiptinema.  Við hjónin höfum reyndar prófað það áður þegar við bjuggum í höfuðstað Norðurlands. Þá var hjá okkur stelpa sem heitir Steph og var frá Colorado USA.


Á nýju ári og nýtt blogg

Þá eru jólin afstaðin og kominn miður janúar. Ég segi bara gleðilegt ár þó seint sé.

Það er dásamlega fagurt að líta út um gluggann núna; alhvít jörð og blankalogn. Út um gluggann sé  ég í Kiwanishúsið þar sem starfsfólk skólans kom saman og skoðaði myndir frá Póllandsferðinni sl. föstudagskvöld. Þar áttum við líka að geta uppá hver væri leynivinurinn síðustu þrjá daga þ.e. fyrir hið téða myndakvöld. Ég fékk vitrun um hádegisbil á föstudag um að leynivinur minn væri hinn fallegi danskennari, sem prýðir oft í vetur síður dagblaðanna í auglýsingu fyrir- ég man ekki hvaða fyrirtæki- sjálfsagt er það banki eða tryggingafélag. Ég hitti naglann á höfuðið. Leynivinur minn var Anna Berglind. Hún gladdi mig með krúttlegum gjöfum eins og hljómdiski með væmnum, fallegum lögum um ást, ást, ást. Hulstrið prýddi myndir af okkur hjónum og á diskinn var ritað pottþétt ást - Siggi + Sigga.  Ég varð fyrir því óhappi á skemmtuninni að meiða mig. Ég stóð upp og tróðst á milli borða, það var ansi þröngt, til að fá mér af krásum þeim sem í boði voru. Ég flækti annarri löppinni í stól eða stóla og flaug á hausinn og beyglaði fótinn einhvern veginn undir mér. Á meðan ég var á fluginu hugsaði af hverju þurfti þetta nú endilega að eiga sér stað. Þetta er afar neyðarleg uppákoma frú Sigríður. Hvað heldurðu að fólk haldi eða hugsi? Ég er sem sagt að drepast í fætinum og reikna ekki með að geta farið í göngutúr í dag í þessu fallega veðri. Skemmtunin var annars góð. 

Ég staulaðist, þrátt fyrir meiðslin,  með mínum ektamanni til Reykjavíkur í gær. Erindið var að skoða tvíburavagna með dóttur okkar. Hún er svo sem búin að vera að skoða og spekúlera. Enda er hún ekki dóttur föður síns fyrir ekki neitt. Þarna voru foreldrar, afi og amma og langamma væntanlegra tvíbura að velta vöngum, skoða, mæla og prófa hina ýmsu vagna. Þetta var skemmtilegt og var greinileg tilhlökkun í loftinu. Langamman fær þrjú langömmubörn með stuttu millibili. Bróðurdóttir mín og nafna á líka von á sér.  

Í gærkveldi borðaði ég fimmberjalamb hjá leynivini mínum, frú Ingibjörgu, en hún var nú reyndar búin að bjóða okkur hjónum áður en hún vissi að ég væri leynivinur hennar. Hún hætti sem sagt ekki við! Ég hafði aldrei smakkað fimmberjalamb fyrr. Þetta er léttreykt lambalæri með berjabragði. Maturinn var mjög góður. Það er svo gaman að vera boðin í mat! 

Úr viðtækinu berast fallegir tónar úr barka Kristins Sigmundssonar, síðasta lag fyrir fréttir: Bára blá. Mér finnst hann flottastur. Þessi er líka flott. Ég fór í heimsókn til Auðar Magneu á föstudaginn til að athuga hvort hún vildi þýðast mig. Hún er algjör dúlla og henni fannst ég allt í lagi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband