Skemmtilegt líf.

 

Það hefur svo margt skemmtilegt drifið á daga mína undanfarna mánuði. Til dæmis er yndislegt að sjá litlu gimsteinana mína (þá yngstu) Sigurð Nonna og Guðmund Nóa dafna og þroskast. Þeir hafa stækkað heilmikið og eru farnir að brosa! Þeir komu í heimsókn í gær og gistu hjá okkur eina nótt. Nói hjalar heilmikið en það er eins og Nonni sé að æfa sig ennþá áður en hann lætur til skara skríða.

Það var líka frábært að hafa hina gullmolana mína að norðan í heimsókn um páskana: Sigurð Ágúst, Ragnhildi og Sigurjón. Fjölskyldan frá Húsavík kom að sjálfsögðu til vera við skírnina sem haldin var hér í blíðskapar veðri á skírdag. Sr. Baldur Kristjánsson skírði og athöfnin var hin fallegasta og veislan að sama skapi skemmtileg. Það komu fjörutíu og fimm gestir, ótrúlegt hvað húsið rúmaði, reyndar hjálpaði blíðan til, því eitthvað að fólkinu drakk utandyra. Það sem eftir lifði af páskahátíðinni kúrðum við stórfjölskyldan saman og nutum þess út í ystu æsar.

Einhvern tímann í apríl fór ég á tónleika með Cliff Richard og skemmti mér konunglega. Asskoti heldur hann sér vel karlinn. Þarna hoppaði hann og skoppaðu um allt sviðið syngjandi sæll og glaður í tvo tíma. Mér fannst ótrúlegt að vera stödd á tónleikum með goðinu sem maður sá í Summer Holiday í Tónabíó í gamla daga, nokkrum sinnum!

Söngferðalag til Vestmannaeyja með Söngfélagi Þorlákshafnar var mjög skemmtileg og tókust tónleikarnir vel. Við héldum sameiginlega tónleika með Freyjukórnum úr Borgarfirði og Kaffihúsakórnum úr Vestmannaeyjum. Safnaðarheimilið var troðfullt og voru heimamenn alveg hissa á aðsókninni. Makakór Söngfélagsins sló þó í gegn með sinni uppákomu um kvöldið. Ég fer ekki ofan af því að Vestamannaeyingar er sérlega skemmtilegur þjóðflokkur.

Annars fer öll mín orka og frítími í Kammerkór Suðurlands. Það eru æfingar og undirbúningur fyrir Frakklandsferð, sem er gríðarleg vinna. Við erum búin að sækja um styrki á yfir fjörutíu staði. Okkur hefur orðið svolítið ágengt, búin að fá nokkra góða styrki. Við höldum þrenna tónleika í Alsace héraði í Frakklandi og erum með þrjár mismunandi efnisskrár. Þetta er náttúrlega bilun... en ansi skemmtilegt.

Nú ætla ég að drífa mig að fara upp í rúm og lesa í skemmtilegu bókinni sem ég er að lesa núna. Ég var að enda við að ljúka við Flugdrekahlauparann og hélt kannski að næsta bók sem ég tók úr sellófaninu yrði ekki eins skemmtileg. En Stelpan frá Stokkseyri er bráðskemmtileg og vel skrifuð bók og svei mér þá ef hún á ekki eftir að hafa áhrif á hvað ég geri 12. maí. Ég er samt á móti virkjunum og álverum. Ég er soddan afturhaldsseggur.

----------

Ps. Takk fyrir hamingjuóskirnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún S Sigurðardóttir

Mikið er ég fegin að hitta þig aftur hér. Ég hélt að þú værir farin eitthvert!

Guðrún S Sigurðardóttir, 4.5.2007 kl. 00:53

2 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

Velkomin aftur frænka

Sigþrúður Harðardóttir, 6.5.2007 kl. 15:05

3 Smámynd: Guðrún S Sigurðardóttir

Frænka???

Guðrún S Sigurðardóttir, 6.5.2007 kl. 22:13

4 identicon

Elska thig mamma!

Gudny dottir (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 19:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband