Borgarferð, eldhúsinnrétting og þjóðhátíð

Eyddi öllum deginum með manninum mínum í borginni. Allt tekur þetta sinn tíma og maður er alltaf eins kreist sítróna eftir svona bæjarferðir...en í dag var ég eins og léttkreist sítróna...sennilega vegna þess hve erindin voru skemmtileg. Nú held ég að ég sé búin að ákveða hvernig nýja eldhúsið mitt kemur til með að líta út; það er nú sennilega tími til kominn eftir svona langa meðgöngu.

Litla prinsessan mín er á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og ég var satt best að segja kvíðafull eftir að ég keyrði hana niður á höfn í gærkveldi. Þar var fullt af krökkum í miklum flýti að koma töskunum sínum í gám og ná ferjunni í tæka tíð;  eftirvæntingafullir í fjörið sem beið þeirra handan við hornið.

Síðan ég kvaddi prinsessuna á hafnarbakkanum, höfum við heyrt í henni nokkrum sinnum. Í hádeginu lágu þær vinkonurnar, hún og Aðalbjörg, upp í rúmi og horfðu á sjónvarpið, ánægðar með herbergið og allar sjónvarpsstöðvarnar sem þær gátu valið um. Í kvöld voru þær í mat hjá mömmu Halldórs, kærasta Rakelar, sem virðist ætla að taka það að sér að fæða þær a. m. k. einu sinni á dag meðan þær dvelja í eyjunum; það er ekki að spyrja að eyjarskeggjum. Svo bið ég bara til guðs að ekkert hendi þær...vitandi það að það þýðir ekkert að velta sér upp úr áhyggjum... 

Ég hlakka til mánudagsins, þegar vinkonurnar verða komnar á fasta landið.


Gullni hringurinn

Annan daginn í röð (í gær) þeyttist ég um Suðurlandið í sólskinsverðri í góðum félagskap nágrannakonu minnar af Barðaströndinni. Gullni hringurinn var ekinn; gengið um á Þingvöllum, farið Gljábakkaveg á Laugarvatn, Geysi og Gullfoss og komið við í Bjarnabúð í Reykholti. Við kíktum við á Selfossi hjá Áslaugu fyrrum samstarfskonu okkar og nutum góða veðursins í skjóli nýs skjólsveggjar hannaðan eftir hana sjálfa.

Ég þarf ekki að orðlengja um fegurðina sem blasti alls staðar við okkur. Þarna vorum við innan um, að mestu leyti, erlenda ferðamenn og samglöddumst þeim yfir að fá svona gott veður og tækifæri til að heimsækja landið okkar, en vorkenndum þeim að sama skapi að þurfa að kaupa sér mat á þessum stöðum. Þvílíkt okur t.d. við Geysi, en þar borðuðum við, og ullarvörurnar sem við handlékum við Gullfoss voru hlægilega dýrar. Af hverju þarf að okra svona á ferðafólki?

----

ÞingvallavatnUm daginn var ég með mínum ektamanni á Þingvöllum í bústað. Þvílík forréttindin að eiga bústað á þessum stað. Ég læt fylgja með nokkra myndir sem ég tók úr þeirri ferð, en í gær var ég ekki með myndavélina.

 


Vin (ekki Vín) í Grímsnesi

Mér finnst sérlega skemmtilegt að lifa þegar sólin skín. Og það var svo sannarlega gott veður í dag og tilhlökkun hjá okkur stöllum, Rebekku og mér, þegar við brunuðum upp í Grímsnes á Phathfinder (sem ég kallaði í ógáti Fastbinder) að heimsækja hið sjálfbæra byggðarhverfi Sólheima, vegna þróunarverkefnisins Grænir fingur sem við ætlum að vinna að í vetur.

 

Sólheimar eru í níu kílómetra fjarlægð frá þjóðveginum og þegar afleggjarinn er ekinn sem leið liggur verður maður ekkert var við byggðarkjarnann fyrr en Sólheima-skiltið blasir við og vegur sem liggur niður í kvos og þar kúrir lítið þorp umvafið fallegum háum trjám.

 

Sólheimar_Græna kannanÞað ríkti mikill friður í hinu vistvæna þorpi; kaffihúsið Græna kannan var lokað, þar sem ætlunin var að fá sér hádegisverð, og opnaði ekki fyrr en klukkan eitt. Það voru allir í mat. Við ákváðum að fara að Minni-Borg og athuga hvort við gætum ekki fengið okkur eitthvað í gogginn þar. Þessi helmingur hringsins var miklu betri, allur malbikaður. Við borðuðum hakkbökur við annað tveggja borða sem bensínstöðin hýsti, við hitt borðið sátu ýtu- og gröfukallar.

Það var sérstök upplifun að borða þarna á bensínstöðinni; borðin voru þétt upp við hvort annað og ómögulegt að komast hjá því að heyra samræðurnar sem þar fóru fram; okkur þótti gaman að fylgjast með þeim og flissuðum þegar svo bar undir; reyndum samt að láta ekki mikið á því bera. Mér fannst eins og ég vera stödd á amerískri bensínstöð eins og maður hefur séð í bíómyndum.  

 

Við fórum aftur niður að Sólheimum en komum við hjá Simma, fyrrum samstarfsfélaga okkar, sem byggir sér einbýlishús á landareign sinni. Hann var þarna með börnin sín tvö sem hjálpuðu honum við bygginguna. Hann leit vel út og virtist alsæll með sig og sína baðandi sig í sólskininu með dásamlegt útsýni í allar áttir.

 

Tvær stelpur með stærðarinnar bakpoka veifuðu til okkar. Við stoppuðum og buðu þeim far en þær voru einmitt að fara niður að Sólheimum. Það kom í ljós að önnur þeirra þekkti til samskonar samfélags í Austurríki, þaðan sem þær komu, og langaði að heimsækja staðinn; það var ekki annað á þeim að heyra en þeim litist vel á það sem blasti við þeim þegar við komum niður í þennan undurfagra reit.

 Sólheimar_1.8.07_Rebekka

Inga hittum við í gróðurhúsinu þar sem ræktað er lífrænt grænmeti og selt er í Versluninni Völu á Sólheimum og Hagkaupum í Reykjavík undir framleiðsluheitinu Sunnu. Hann sýndi okkur tómata: rauða, gula og svarta. paprikur og gúrkur. Hann fræddi okkur líka um starfsemina og ferlið.

 

Eftir heimsóknina hjá Sunnu fórum við í verslunina og keyptum grænmeti og töfrakrem framleitt á Tálknafirði; víst algjört undrakrem, á nær alla hluti líkamans. Ég keypti mér Fótaundur.

 

Lukum heimsókn okkar í sjálfbæra samfélagið, Sólheima, á Grænu könnunni; keyrðum svo í sæluvímu heim á leið uppnumdar af fegurðinni sem blasti við okkur þangað til við fórum í Bónus á Selfossi, þá datt brosið af andlitunum.


Endurfundir

Þær komu um hálftíu í gærmorgun, í morgunkaffi, tvær kennslukonur úr skóla sem ég kenndi við í Reykjavík fyrir þrjátíu árum. Aðra hitti ég fyrir þrem vikum en hina hef ég ekki séð í akkúrat þrjátíu ár. Þær kenna enn við sama skóla og fleiri góðar konur (og tveir karlar) sem ég þekki.

Þegar ég hitti Sigurlín um daginn kom það til tals hve Fljótakonan væri góð spákona. Ég sagði nú sí sona að það væri nú skemmtilegt að fá hana til að spá fyrir sér. Sigurlín hélt nú að hægt væri að koma því í kring, einhvern tímann.

Í gær hringdi hún og sagði að Fljótakonan væri tilbúin að spá fyrir mér með því skilyrði að ég byði þeim í kaffi.

Í spilunum sá Fljótakonan fullt af peningum. Þar sem ég gat ómögulega fundið út hvaðan þeir ættu að koma, þá benti hún mér á að kaupa lottómiða.

En viti menn ég held að spádómurinn hafi þegar ræst. Þær voru ekki fyrr farnar en pósturinn bankaði upp á hjá mér, ég meina það hann bankaði, og rétti mér umslög frá skattinum. Þar stóð í bréfinu að ég fengi tuttuguogtvöþúsund króna ávísun í pósti 1. ágúst!

Það var eins og ég hefði hitta Sigurjónu í gær heima hjá henni í litlu íbúðinni, ég held að hún hafi verið í Þingholtunum (gangurinn ilmandi af hvítlauklauk, nágranni hennar, eldri maður, taldi hvítlauk allra meina bót og bruddi hann í gríð og erg) berandi fram frosna kókósköku með súkkulaðikremi... nota bene... kakan átti að vera frosin...

---

Ég hitti semsagt Sigurlín fyrir þremur vikum og Hildi og Nönnu en við kenndum allar saman frá 1974-1977 og þetta var í fjórða skiptið sem við hittumst að sumri til í jafnmörg ár, sannkallaður sumarklúbbur. Þó við hittumst ekki nema einu sinni á ári er eins og tíminn standi í stað á milli og þráðurinn tekinn upp sem frá var horfið árið áður.

Við byrjum alltaf á því að fá okkur göngutúr og borðum síðan saman hádegisverð og spjöllum og hlægjum saman og tökum tækifærismyndir og ætla ég að setja tvær af þeim inn; ég tek það fram að þær eru teknar á Íslandi... en hvar?

11. júlí  2007_Sumarklúbburinn 01

 

 

 

 

 

 

 

11. júlí  2007_Sumarklúbburinn 02


Hún er farin heim...fyrir nokkru

6. júlí 2007_Kveðjustund með GamGam fór heim til Taílands daginn eftir að Guðný kom heim. Þær hittust ekki því Gam, ásamt hinum skiptinemunum, var í hálfgerðri einangrun sólhring áður en þeir yfirgáfu landið, í Heiðarskóla í Keflavík.

Hún kom til okkar föstudaginn áður en hún fór (á sunnudag) og borðaði með okkur hádegisverð. Við röbbuðum um dvöl hennar á Íslandi, sumarvinnuna, skiptinemana, stráka og væntanlega ferð hennar heim til Taílands. Hugur hennar var lævi blandin. Frelsið sem átti svo vel við hana myndi renna henni úr greipum þegar hún kæmi til heimalands síns.

Ég man alltaf eftir því þegar ég fór meðan hana rúnt um bæinn til sýna henni staðinn, sama daginn og hún kom til okkar, og hún sagði í lok ferðarinnar: - "Það er mjög friðsælt hérna" með hálfgerðum hræðsluglampa í augunum. Það var ekkert lífsmark með bænum, ekki hræðu að sjá.

Ég skildi hana svo vel eftir að ég kom heim úr Kínaferðinni. Þetta eru svo mikil viðbrigði að koma frá landi þar sem ekki er hægt að þverfóta fyrir fólki og bílum, iðandi líf allan sólarhringinn. Maður getur alveg fengið "pallieinníheiminum" tilfinningu við fyrstu kynni af bænum.

Eldsnemma á laugardagsmorgun var hringt á bjöllunni og ég var nú hálf undrandi hver gæti verið þar á ferð. Jú það var elsku Gam að kveðja einu sinni enn.

Á sunnudaginn fékk ég svo falleg smáskilaboð frá henni sem hún sendi frá flugvellinum. Eftir heimkomuna skrifaðu hún tölvubréf þar sem hún sagðist sakna allra í Þorlákshöfn og bæjarins. Allt væri svo framandi í Taílandi, hún væri eins og skiptinemi í sínu eigin landi.

Hana langar að fara í háskóla hér á landi og vonandi rætist sá draumur. Ég sakna hennar og þakka fyrir þetta tæpa hálfa ár sem hún var hjá okkur.

En þar sem við hjónin þurftum að fara í svo margar sprautur áður en við fórum til Kína í vor, og sem kostuðu sitt, þá töluðum við um að við þyrftum svo sannarlega að nýta virkni þeirra....þannig að kannski er Taíland ekki langt undan.


Hún er komin heim...fyrir nokkru

Nú eru 11 dagar síðan að prinsessan kom heim. Hún er alsæl með skiptinemadvölina sína á Ítalíu og fjölskyldan var yndisleg við hana.

Fyrir helgi fékk hún tvö bréf annað frá mömmu sinni og hitt frá ömmunni þar sem þær láta í ljós ánægju sína með hana og vilja að hún komi aftur næsta sumar. Og ekki held ég að hún myndi hafa neitt á móti því. Hún saknar þeirrar þó hún sé ánægð með að vera komin heim.

Daginn eftir heimkomuna og borðuðum við saman - vinkonur hennar og foreldrar þeirra og nokkrir fjölskyldumeðlimir í blíðskaparveðri.

 Velkomin heim Guðný

Fleiri myndir undir tenglinum myndaalbúm.

Myndir úr fjölskylduferðinni er undir tenglinum Albúm.


Dýrt spaug

Tuttugu og tvö þúsund krónur kostaði það mig að týna bíllyklunum. Ég hef ekki hugmynd um hvar ég glopraði þeim, er einna helst á að ég hafi hent þeim í ruslið. Daginn sem lyklahvarfið átti sér stað var hamagangur í öskjunni hjá frú Sigríði.

Maðurinn var ekki búinn að vera nema nokkra daga í fríi þegar hann týndi varalyklunum. Allur gærdagurinn fór í að leita og það var alveg vitað mál að þeir voru einhvers staðar inni í húsi en leitin bar ekki árangur fyrr en búið var að láta smíða aukalykla með fjarstýringu og nokkra mínútur í að hringt væri á dráttarbíl (það var nefnilega ekki nóg að smíða lyklana, bíllinn þurfti að koma á staðinn vegna...æ ég man ekki út af hverju...þjófavörninni held ég).  


Húnaþing vestra kemur á óvart

Amma og Guðný við KolugljúfurEr nýkomin heim úr velheppnaðri fjölskylduferð um Húnaþing vestra, þar sem við gistum tvær nætur á Sveitasetrinu Gauksmýri og ferðuðumst um Vatnsnesið, Víðidalinn og Vatnsdalinn.

Þarna leynast margar fagrar náttúruperlur sem maður hefur aldrei gefið sér tíma til að heimsækja, á leið norður í land eða á suðurleið, eins og: Hamarsbúð, Hindisvík, Hvítserk, Borgarvirki, Kolugljúfur, Þingeyrarkirkju, Þórdísarlund, Þrístapa og Bjarg í Miðfirði. Stórbrotið útsýni frá Borgarvirki og Bjargi þar sem Grettir fæddist.

 

Það er líka gaman að koma á Hvammstanga. Þar er góð og velviðhaldin sundlaug, Selasetur Íslands og Bardúsa þar sem er Verslunarminjasafn og handverkssala.

 

Vatnsleysusystkinin, eitthvað af börnum þeirra og barnabörnum voru alsæl með ferðina. Kynslóðarbil hvað er það? Aldursdreifingin var frá áttatíu og einu ári niður í fimm mánaða.

 

Það er ótrúlegt en satt...

en frumburður minn er 38 ára í dag. Það vildi svo skemmtilega til að hún var einmitt stödd í bænum (Reykjavík) og í tilefni dagsins bauð frú Steingerður nöfnu sinni og fjölskyldunni til veislu í Frostafoldinni með engum fyrirvara. Móðurmyndin lagði nú eitthvað smotterí til veisluborðsins.

 

Þetta var skemmtilegt afmæliskaffi, en það er ekki alltaf sem við höfum getað fagnað afmælinu með Steingerði meðan hún bjó á Húsavík. Já ég skrifa bjó því nú er hún flutt á mölina eða malbikið frá og með deginum í dag. Hún réði sig í nýja vinnu í gær.

 

Í bítið í fyrramálið fer hún til Gautaborgar sem fararstjóri með fótboltaliði Völsungs. Í liðinu er frumburður hennar Sigurður Ágúst, bráðum 16 ára! Mæðginin ætla að njóta í botn ferðarinnar saman. Þegar þau koma heim hefst nýr kapítuli í þeirra lífi sem veður bara skemmtilegur.

Og hér ætti auðvitað að fylgja mynd af afmælisbarninu en viti menn það er ekki ein einast mynd af afmælisbarninu né gestum, nema náttúrlega af ungviðinu; Guðmundi Nóa og Sigurði Nonna og nýjast frændanum sem er aðeins þriggja vikna gamall og er kallaður Metúsalem Máni, ég held í gríni, en hann verður skírður eftir viku. Hann þykir líkjast afa sínum Þorsteini...og ekki leiðum að líkjast... verður alltaf að fylgja með.

 

Myndirnar af þessum yndislegu litlu krílum fylgja því þessari færslu.

 

12. júli 2007 _Nói Nói 12. júli 2007 _Nonni Nonni

 

12. júli 2007 _Sirrýjarsonur

Sonur Sirrýjar og Kristjáns


Skemmtilegt líf.

 

Það hefur svo margt skemmtilegt drifið á daga mína undanfarna mánuði. Til dæmis er yndislegt að sjá litlu gimsteinana mína (þá yngstu) Sigurð Nonna og Guðmund Nóa dafna og þroskast. Þeir hafa stækkað heilmikið og eru farnir að brosa! Þeir komu í heimsókn í gær og gistu hjá okkur eina nótt. Nói hjalar heilmikið en það er eins og Nonni sé að æfa sig ennþá áður en hann lætur til skara skríða.

Það var líka frábært að hafa hina gullmolana mína að norðan í heimsókn um páskana: Sigurð Ágúst, Ragnhildi og Sigurjón. Fjölskyldan frá Húsavík kom að sjálfsögðu til vera við skírnina sem haldin var hér í blíðskapar veðri á skírdag. Sr. Baldur Kristjánsson skírði og athöfnin var hin fallegasta og veislan að sama skapi skemmtileg. Það komu fjörutíu og fimm gestir, ótrúlegt hvað húsið rúmaði, reyndar hjálpaði blíðan til, því eitthvað að fólkinu drakk utandyra. Það sem eftir lifði af páskahátíðinni kúrðum við stórfjölskyldan saman og nutum þess út í ystu æsar.

Einhvern tímann í apríl fór ég á tónleika með Cliff Richard og skemmti mér konunglega. Asskoti heldur hann sér vel karlinn. Þarna hoppaði hann og skoppaðu um allt sviðið syngjandi sæll og glaður í tvo tíma. Mér fannst ótrúlegt að vera stödd á tónleikum með goðinu sem maður sá í Summer Holiday í Tónabíó í gamla daga, nokkrum sinnum!

Söngferðalag til Vestmannaeyja með Söngfélagi Þorlákshafnar var mjög skemmtileg og tókust tónleikarnir vel. Við héldum sameiginlega tónleika með Freyjukórnum úr Borgarfirði og Kaffihúsakórnum úr Vestmannaeyjum. Safnaðarheimilið var troðfullt og voru heimamenn alveg hissa á aðsókninni. Makakór Söngfélagsins sló þó í gegn með sinni uppákomu um kvöldið. Ég fer ekki ofan af því að Vestamannaeyingar er sérlega skemmtilegur þjóðflokkur.

Annars fer öll mín orka og frítími í Kammerkór Suðurlands. Það eru æfingar og undirbúningur fyrir Frakklandsferð, sem er gríðarleg vinna. Við erum búin að sækja um styrki á yfir fjörutíu staði. Okkur hefur orðið svolítið ágengt, búin að fá nokkra góða styrki. Við höldum þrenna tónleika í Alsace héraði í Frakklandi og erum með þrjár mismunandi efnisskrár. Þetta er náttúrlega bilun... en ansi skemmtilegt.

Nú ætla ég að drífa mig að fara upp í rúm og lesa í skemmtilegu bókinni sem ég er að lesa núna. Ég var að enda við að ljúka við Flugdrekahlauparann og hélt kannski að næsta bók sem ég tók úr sellófaninu yrði ekki eins skemmtileg. En Stelpan frá Stokkseyri er bráðskemmtileg og vel skrifuð bók og svei mér þá ef hún á ekki eftir að hafa áhrif á hvað ég geri 12. maí. Ég er samt á móti virkjunum og álverum. Ég er soddan afturhaldsseggur.

----------

Ps. Takk fyrir hamingjuóskirnar.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband